Skokkað á Botnssúlur.. isspiss!
Isspiss í vígsluferð sjálfssín ...
Það var haldið af stað snemma morguns. Reyndar ekkert of snemma. Ætlunin að hittast kl. 10 á Select sem auðvitað tókst ekki neitt, heldur mættu sumir eitthvað seinna en aðrir og svo var einn fimmti af hópnum eða Laufey með hálsbólgu og komst því hvergi.
Svo var haldið af stað og það gekk vel. Við vorum bara fjögur saman og bara í Cesari [sem er blár Isuzu Trooper með aukaaðild að félagsskapnum] og hann var í stuði eða svo stóðu vonir til en allt í einu tók hann hið hroðalegasta æðiskast og snúningsharðamælirinn fór í hærri hæðir en áður hefur sést og það kom reykur, heilt ský aftur úr bílnum og skildi enginn neitt í neinu annað en að eitthvað voðalegt var að gerast. Í dauðans angist var slökkt á bílnum en hann tók ekkert mark á því. Þá var tekin hægri beygja inn eitthvað að einhverju hverfi sem er í Mosfellssveit og þá drap hann á sér og fór ekki lengra.
Nú voru góð ráð dýr. Ekki búið að fara á neitt fjall, veðrið alveg eðal en Cesar alveg steindauður. [verður honum þar með vikið úr félagsskapnum nema hann verði eitthvað líflegri aftur]
Það varð úr að Arna fór til baka á puttanum og kom svo askvaðandi á sínum Vitarastuttjeppa sem varð nú betri en enginn. Þar inn pökkuðum við okkur og ókum svo áleiðis til Þingvalla. Þar var ekki áðum sinnt fyrr en komið var inn í Svartakot og allt hafurtask axlað og svo arkað af stað...
Leiðin var öll á fótinn og svona ágætasta klettaklifur þegar best lét.
Sem var okkur auðvitað einungis til mikillag gleði enda bratt klifurbrölt einungis til þess fallið að tryggja að hver meter feli í sér meter nær takmarkinu sem var 1093 metrar ef eitthvað er að marka þetta kortadót sem maður var með þarna.
Svo var haft ærlegt hádegisstopp rétt áður en tindinum var náð þar sem góflað var á alls kyns kræsingum. Einhverjir hefðu beðið með snæðing uns tindinum væri náð en við erum reyndari fjallafarar en svo og lékum á vindinn en létum hann ekki leika um okkur. Sátum þarna í fínu skjóli og glampandi sól. Nokkrum metratugum ofar var tindurinn í hávaðaroki gátum við getið okkur til og með tilheyrandi skítakulda.
Þegar grófmetið var komið í kroppinn bauð Arna upp á viðbót í sætari kantinum sem var nefnilega lummur og sýróp úr brúsa!
En þetta var annars algjörar heilsulummur eins og kokkurinn sjálfur benti á bakað úr spelt- og haframéli. Hollustan sem smjatt í algjöru fyrirrúmi. Eftir að hafa úðað þessu í okkur og helt sírópinu út um allt var haldið af stað aftur upp á tindinn.
Það sem okkur hafði grunað reyndist á rökum reist. Botnssúlur eru í landi Hringadróttins og var þarna uppi tilbúinn bálköstur til merkjagjafar um víðan völl. Vissum við nokkuð af varðmanninum fyrir neðan stóra klettinn sem beið átekta til merkjagjafar. Höfðum við vit á að vera ekki að trufla hann því lögum samkvæmt var hann þar tilbúinn með alvæpni og með skýr fyrirmæli um að hálshöggva hvern þann sem kæmi nærri bálkestinum. Þar sem dauði eða almennt lífleysi er brottrekstrarsök í Isspiss þá héldum við bara áfram alveg upp á tindinn og spókuðum okkur þar.
Útsýni var gríðarmikið í ýmsar áttir og voru myndavélar mundaðar af miklu kappi til að fanga herlegheitin. (það getur annars verið gaman að smella á myndina hér að neðan því þá birtist hún svoltið stór!)
Svo var nú bara haldið aðra leið niður í bíl og ríkt almenn gleði í hópnum þó haft hafi verið á orði að þessar Botnssúlur væru nú bara svona Isspiss ekki mikið mál fyrir vant fólk!
Samt lentum við næstum því í myrkri og allt og notuðum bæði áttavita og kort og GPS tæki til að komast til baka. Lambi og aðrir sérfræðingar hefðu bara orðið stoltir af okkur!
Svo sést leiðin okkar svona hér...
|
<< Home